Skólakór Kársness hlaut gullverðlaun í flokknum samkynjaraddir í St. Petersburgh Grand Prix, virtri alþjóðlegri kórakeppni í Pétursborg í Rússlandi í dag. Stúlkurnar hlutu 94 stig af 100 í þeim flokki en kórinn hlaut jafnframt silfur í flokki blandaðra radda eða 86 stig.
„Hvorki Þórunn, börnin né við öll áttum nokkurn tíman von á að þau fengju verðlaun," sagði Jóhanna Pálsdóttir kennari við Kársnesskóla sem á jafnframt tvö börn í kórnum og aðstoðar kórstjórann Þórunni Björnsdóttur.
Þórunn hefur stýrt kórnum frá upphafi eða í 32 ár við góðan orðstír.
Kórar frá 16 löndum tóku þátt í keppninni og eru þeir allir tengdir skólum sem sérhæfa sig í tónlistarmenntun barna.
Jóhanna sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að kórinn hefði einungis flutt lög eftir íslensk tónskáld og að tvö þeirra væru með í för, feðginin Mist Þorkelsdóttir og Þorkell Sigurbjörnsson.