Sprautunálar eru ekki óalgeng sjón þegar ungmenni í Vinnuskóla Reykjavíkur mæta til vinnu á morgnana. Nýjasta tilfellið eru tvær sprautur með nálum sem fundust við Hallgrímskirkju. Laufey Blöndal, nemandi í Vinnuskólanum, fann ásamt félögum sínum sprauturnar þegar þau mættu til vinnu. Önnur sprautan blasti við á tröppum við bakhlið kirkjunnar en hin fannst í beði, grafin í moldinni. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Laufey finnur sprautunálar í vinnunni og það sama virtist upp á teningnum hjá öðrum viðmælendum Morgunblaðsins í Vinnuskólanum.
Leiðbeinandi sem Morgunblaðið ræddi við sagði að það gerðist mjög reglulega að sprautur fyndust í beðum.„Allir leiðbeinendur í Vinnuskólanum fara í gegnum öryggisreglur hjá okkur áður en þeir hefja störf,“ segir Magnús Arnar Sveinbjörnsson, staðgengill skólastjóra Vinnuskóla Reykjavíkur. Hann segir börnin sjálf ekki fá sérstaka kennslu.
Það eru ákveðin svæði þar sem sérstök hætta er á að sprautunálar finnist eins og til dæmis Öskjuhlíðin. „Á þeim svæðum eru leiðbeinendur settir vel inn í hvernig bregðast skuli við þegar nálar finnast en nemendurnir sjálfir fá ekki allir slíkar leiðbeiningar,“ segir Magnús.