„Fjármálaráðuneytið og viðskiptaráðuneytið skipuðu sérstakan starfshóp til að útfæra niðurfellingu vörugjalda og breytingu á reglum um netverslun. Nota á sumarið til að ljúka þeirri vinnu og ættum við að fá niðurstöðu síðsumars,“ útskýrir Björgvin aðspurður hvað sé að frétta af þessum málum.
Eitt raftæki sem sérstaklega hefur verið nefnt í þessu sambandi er hinn vinsæli tónlistarspilari iPod, en ríkið tekur til sín um 57% af söluandvirði hvers iPods og eru tækin fyrir vikið mun dýrari en í nágrannalöndunum.
Í fríhöfninni bera iPodar ekki vörugjöld.
„Það hefur verið áætlað að ríkissjóður verði af hundruðum milljóna kr. í virðisaukaskattstekjum vegna þess að Íslendingar kaupa iPod erlendis, t.d. er helmingur þeirra iPod-spilara sem koma í viðgerð á þjónustuverkstæði okkar keyptur erlendis. Okkur grunar að hlutfallið sé enn hærra,“ segir Daði Rafnsson, sölustjóri Apple IMC á Íslandi, en fyrirtækið hefur kvartað undan innheimtunni til umboðsmanns Alþingis.