Andlát: Brynja Kristjana Benediktsdóttir

Brynja Kristjana Benediktsdóttir leikstjóri lést á heimili sínu í Reykjavík laugardaginn 21. júní eftir skammvinn veikindi, sjötug að aldri.

Brynja fæddist í Reyni í Mýrdal 20. febrúar 1938. Foreldrar hennar voru Róshildur Sveinsdóttir, jógakennari og húsmóðir, og Benedikt Guðjónsson kennari.

Brynja ólst upp í Mýrdal til sjö ára aldurs en eftir það í Reykjavík.

Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958, stundaði um tíma nám við verkfræðideild Háskóla Íslands en sneri sér fljótlega að leiklist. Hún útskrifaðist úr leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1960. Hún stundaði nám í látbragðsleik hjá Jacques Lecoq í París það sama ár en auk þess fór hún í lengri námsferðir til helstu leikhúsa í Evrópu ásamt Erlingi Gíslasyni leikara, eiginmanni sínum.

Brynja var ein af stofnendum leikfélagsins Grímu, 1961, sem var stofnað til að kynna ný íslensk leikverk. Meðal eftirminnilegustu sýninga sem Brynja setti upp voru Lýsistrata árið 1970 (fyrst fyrir Herranótt MR, síðar við Þjóðleikhúsið, Leikfélag Akureyrar og loks í Bad Herschfeld í Þýskalandi), söngleikurinn Hárið 1971, Inúk 1973, Óvitarnir 1979 og Endurbyggingin eftir V. Havel 1989. Hún var ráðin sem leikari og leikstjóri við Þjóðleikhúsið frá 1960-1991. Veturinn 1977-1978 var Brynja leikhússtjóri við Leikfélag Akureyrar. Á síðasta áratug byggði Brynja og rak, ásamt Erlingi, Vinnustofu leikara, Skemmtihúsið við Laufásveg.

Segja má að leiklistarferill Brynju hafi risið hvað hæst með verkum sem hún samdi, ein eða með öðrum, og setti upp. Inúk, frumsýnt 1973, hlaut fádæma viðtökur víða um heim og sama má segja um Ferðir Guðríðar sem Brynja frumsýndi í Skemmtihúsinu árið 2000. Sú sýning er enn eftirsótt á leiklistarhátíðir og var síðast sýnt í Kólumbíu. Boðsferð til Quebec í Kanada var framundan. Leikritið um Gosa samdi Brynja upp úr sögu Collodis og frumsýndi 1981.

Bók um líf hjónanna Brynju og Erlings, „Brynja og Erlingur, fyrir opnum tjöldum“, kom út 1994.

Eftirlifandi eiginmaður Brynju er Erlingur Gíslason leikari. Sonur þeirra er Benedikt Erlingsson, leikari og leikskáld, eiginkona hans er Charlotte Böving leikkona. Dóttir þeirra er Anna Róshildur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert