Framkvæmdaleyfi fyrir vegi í Gufudalssveit

Leið B liggur meðal annars gegnum Teigsskóg.
Leið B liggur meðal annars gegnum Teigsskóg.

Hreppsnefnd Reykhólahrepps hefur veitt Vegagerðinni framkvæmdaleyfi fyrir nýbyggingu vegar í Gufudalssveit, en um er að ræða leið B, sem liggur meðal annars í gegnum Teigskóg.

Að því er fram kemur á vef Svæðisútvarps Vestfjarða var leyfið gefið út á hreppsnefndarfundi á fimmtudag en ekki liggur fyrir hvenær verkið verður boðið út og enn á eftir að semja við einhverja landeigendur.

Veglagningin hefur verið umdeild. Eftir frávísun kæru á hendur íslenska ríkinu stendur eftir kæra á hendur Vegagerðinni, sem verður fram haldið að sögn lögfræðings Náttúruverndarsamtaka Íslands og annarra sækjenda í málinu. Reykhólahreppur hafði frestað afgreiðslu á erindi Vegagerðarinnar í tvígang, í fyrra skiptið vegna kærunnar og í seinna skiptið til að fá fram sjónarmið landeigenda.

Eins og greint hefur verið frá ákvað Vegagerðin að láta ekki málaferli tefja vinnu við vegalagningu í Teigskógi. Í maí kom fram að unnið væri að því að hanna veginn og tilraunir væru hafnar til samninga við landeigendur.

Fylgjendur þess að önnur leið yrði valin en í gegnum skóginn bentu á að Teigskógur njóti sérstöðu á Vestfjörðum og á landinu í heild en hann mun vera stærsti birkiskógur í fjórðungnum.

Andstæðingar þess að önnur leið væri valin létu orð falla eins og að „birkihríslur væru meira metnar en mannslíf“.

Eftir töluverðar deilur samþykkti þáverandi umhverfisráðherra í janúar að leið B í 2. áfanga yrði farin þar sem vegastæðið liggur um Teigsskóg í Þorskafirði, enda væri það óumdeilt að leið um Teigsskóg væri betri kostur en aðrar leiðir, á milli Bjarkarlundar og Eyrar í Reykhólahreppi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert