Framkvæmdir stöðvaðar við Lund

Hringtorgið við Lund
Hringtorgið við Lund

Sýslumaðurinn í Kópavogi hefur hafnað kröfu húsfélagsins í Lundi 1 um að loka fyrir umferð til vesturs um hringtorg á gatnamótum Nýbýlavegar og Lundar í Kópavogi en fallist á kröfu um stöðvun frekari framkvæmda við veginn á um 150 m kafla næst húsinu sem afmarkast að austan af vesturenda trjálundar og að vestan af suðausturhorni bensínstöðvarlóðar.
 
Húsfélaginu er gert að setja tryggingu að fjárhæð kr. 8.000.000.
 
Framkvæmdum á umræddu svæði hafði þegar verið frestað eftir að bæjarráð Kópavogs hinn 12. júní sl. skoraði á framkvæmdaraðila, Vegagerðina annars vegar og Byggingarfélag Gylfa og Gunnars (BYGG) hins vegar, að færa hringtorg, gönguleið og tengibraut við Nýbýlaveg fjær húsinu, samkvæmt tilkynningu frá Kópavogsbæ.
 
Lögbann við framkvæmdum kemur að svo stöddu í veg fyrir færslu vegarins fjær húseigninni og hindrar jafnframt frágang sem ætlaður er til að tryggja öryggi, einkum gangandi og hjólandi vegfarenda. Framkvæmdum við Nýbýlaveg að öðru leyti verður haldið áfram.
 
„Kópavogsbær ítrekar að framkvæmdir við Nýbýlaveg rúmist innan skipulags og mun mótmæla lögbanni sýslumannsins í Kópavogi komi til staðfestingarmáls sem húseigendur í Lundi 1 verða að höfða fyrir héraðsdómi Reykjaness innan viku," segir í tilkynningu bæjarins.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert