„Vernd foreldra nær til þess að fylgjast með námsárangri barna sinna og hvort þau séu farin að kynnast áfengi, tóbaki eða kynlífi, en almennt missa foreldrarnir verndarhlutverk sitt þegar krakkarnir eldast og hætta að trúa foreldrunum fyrir öllu, heldur leita til vinahópsins,“ segir Þóroddur Bjarnason prófessor um þá staðhæfingu sína að íslenskar stúlkur séu ekki jafnverndaðar og jafnöldrur þeirra í öðrum löndum. Minni vernd kunni að vera ástæða þess að íslenskar stúlkur stundi fyrr kynlíf með sér eldri mönnum. Heilsu- og lífskjararannsókn skólanema á Vesturlöndum sýnir að 36% 15 ára íslenskra stúlkna hafi sofið hjá og 29% stráka.
„Íslenskir unglingar njóta ekki í sama mæli þess ramma sem tengsl við foreldra setja unglingum víðast annars staðar á Vesturlöndum,“ segir Þóroddur. Það eru ekki endilega reglurnar sem skipta mestu máli í þessu sambandi, heldur tengsl barna við foreldra sína. Reglur heimilisins komi að litlum notum ef tengslin eru léleg og krökkunum nett sama hvað foreldrunum finnst. Séu tengslin hins vegar meiri, vilji krakkarnir síður gera það sem foreldrunum mislíkar. „Það kemur að því að berum ekki lengur undir mömmu erfiðar ákvarðanir í lífinu. Spurningin er hvort það gerist við fjórtán ára aldurinn, 16 ára eða 18,“ bendir hann á.
Til samanburðar má nefna aðstæður slóvenskra unglinga en þeir skilja miklu síður á milli vinahópsins og fjölskyldunnar, eins og hinir íslensku. Þvert á móti tengist vinahópurinn fjölskyldu unglingsins allsterkum böndum. „Þar velur unglingurinn ekki á milli fjölskyldunnar og vinahópsins, ólíkt því sem gengur og gerist meðal íslenskra unglinga.“
Sjálfstæði íslenskra barna og unglinga hefur að sögn Þórodds verið álitið af hinu góða í þjóðarsálinni, síðustu öldina eða svo, þó svo að þessu hafi alltaf fylgt há slysatíðni á börnum. Gífurlegar samfélagsbreytingar með tilkomu vélvæðingar í sjávarútvegi skömmu eftir aldamótin 1900 hafi gert viðhorf gagnvart börnum, barneignum og uppeldi mun afslappaðri en áður var. Með þessum samfélagsbreytingum breyttist á skömmum tíma mynstur í fjölskyldumálunum með því að fólk byrjaði mun yngra að fá sér maka og átti betri framfærslumöguleika en tíðkaðist áður.