Uppsagnir gleðja markaðinn

Fregnir um yfirvofandi uppsagnir að minnsta kosti tvö hundruð starfsmanna Icelandair hafa hækkað gengi hlutabréfa í félaginu í kauphöllinni í morgun, en það hefur verið á niðurleið undanfarna daga.

Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli, sem er dótturfélag Icelandair, hefur tilkynnt um uppsagnir tæplega eitt hundrað manns, í samtals 75 stöðugildum, þar sem mikill samdráttur í flugi sé fyrirsjáanlegur á hausti komanda.

Forsvarsmenn Icelandair hafa varist allra frétta síðan fjölmiðlar greindu í gærkvöldi frá því að búast megi við umfangsmiklum uppsögnum hjá félaginu, en boðaðir hafa verið fundir með starfsfólki á morgun, þar sem væntanlega verður greint frá uppsögnum og öðrum aðgerðum.

Hækkun hlutabréfanna í Icelandair í morgun nam tæpum þrem prósentum, til viðbótar hækkun sem varð á föstudag. Frá áramótum hafði aftur á móti lækkun bréfanna numið um 45 prósentum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert