Fór með rifrildið fyrir dóm

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað karlmann á fimmtugsaldri af kröfum annars á svipuðu reiki, en sá síðarnefndi vildi fá þann fyrrnefnda dæmdan fyrir ærumeiðingar. Mennirnir voru nágrannar og deildu nokkuð á þeim tíma. Keyrði um þverbak þegar annar mannanna sakaði nágranna sinn um að hafa gægst á glugga hjá sér í þrígang.

Hinn meinti gluggagægir vildi fá ummæli hins dæmd dauð og ómerk og hálfa milljón í miskabætur, en einnig 110 þúsund krónur svo hann gæti prentað dómsorð í 110 eintökum til að dreifa til þeirra sem ætla mætti að hafi fengið að heyra ummælin, s.s. ættingja, kunningja og vinnufélaga, ásamt núverandi og fyrrverandi nágrönnum. Sá hinn sami neitaði frá upphafi að hafa gægst á gluggann.

Í niðurstöðu dómsins segir að ekki verði annað ráðið en að mennirnir hafi rifist í umrætt sinn, og var engan veginn fallist á að um ærumeiðingar væri að ræða. Hinum meinta gluggagægi var gert að greiða fyrrum nágranna sínum 290 þúsund krónur í málskostnað.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert