Mörg fiskvinnslufyrirtæki grípa til lengri sumarlokana en undanfarin ár til að mæta kvótaskerðingunni á yfirstandandi fiskveiðiári, en því lýkur í lok ágústmánaðar. Hjá Þorbirni hf. í Grindavík hófst sumarleyfi starfsmanna fyrirtækisins í gær og hjá flestum stendur það út júlímánuð. Einhver skörun er þó hjá starfsfólki og þannig fer hluti starfsmanna Þorbjarnar síðar í sumarleyfi og kemur til starfa þegar liðið er á ágústmánuð.
„Við höfum gengið út frá því að kvótaskerðingin í þorski í fyrra myndi meðal annars koma fram í því að það verði lengra sumarstopp hjá mörgum fyrirtækjum,“ segir Arnar Sigurmundsson formaður Samtaka fiskvinnslustöðva. „Hjá flestum verður þetta þó ekki fyrr en kemur fram í júlí. Fólk á líka lengra frí en áður þar sem orlofsréttur hefur verið að lengjast. Áður lokuðu menn kannski ¾ úr sumarleyfistímanum, en nú reikna ég með að margir loki allan sumarleyfistímann og jafnvel gott betur,“ segir Arnar.
Hjá Þorbirni í Grindavík verða línuskipin bundin við bryggju nokkru lengur en undanfarin ár, en togurum fyrirtækisins verður hins vegar ekki lagt yfir hásumarið. „Við höfum reynt að treina okkur ákveðin verkefni eins og við frágang á saltfiski og vinnum það í sumar,“ segir Gunnar Tómasson framkvæmdastjóri.
„Í frystingunni tökum við rúmlega fullt sumarfrí, 5-6 vikur, og lokum frá og með deginum í dag og fram yfir verslunarmannahelgi,“ sagði Gunnar í gær. Auk rekstursins í Grindavík er Þorbjörn með vinnslu í Vogum og er fiskurinn jöfnum höndum frystur og saltaður auk flakavinnslu um borð í togurunum.