Formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna segir fregnir um uppsagnir á 88 flugmönnum hjá Icelandair vera einhver grimmustu tíðindin sem borist hafi í sögu félagsins.
Auk þeirra 64 flugmanna sem fá uppsagnarbréf núna um mánaðamótin verður 24 sem ráðnir voru í sumar sagt upp, segir formaðurinn, Jóhannes Bjarni Guðmundsson.
Framkvæmdastjóri Icelandair, Birkir Hólm Guðnason, segir uppsagnirnar sem félagið greindi frá í morgun vera einhverjar þær mestu í sögu félagsins.
Versnandi horfum í rekstrinum verði því miður ekki mætt nema með beinum niðurskurði.
Forráðamenn Icelandair funduðu með flugfreyjum og flugmönnum félagsins í morgun, þar sem rætt var um uppsagnirnar sem félagið hefur tilkynnt.