Tvítug stúlka hefur verið dæmd til að greiða 240 þúsund króna sekt til ríkissjóðs auk þess sem hún var svipt ökurétti í tvö ár fyrir umferðarlagabrot. Stúlkan varð uppvís að akstri bifreiðar svipt ökurétti og óhæf til að stjórna henni vegna áhrifa tetrahýdrókannabínólsýru.
Stúlkan neitaði að hafa verið undir áhrifum fíkniefna, enda sé tetrahýdrókannabínólsýra niðurbrotsefni THC og finnst aðeins í þvagi. Ómögulegt er því að hún hafi verið undir áhrifum efnanna. Óumdeilt er að stúlkan hafi notað kannabisefni, en þau er hægt að finna í allt að átta vikur eða jafnvel lengur eftir mikla kannabisneyslu, en ef miðað er við eitt skipti getur það verið í um eina viku.
Samkvæmt íslenskum lögum telst hún þrátt fyrir það óhæf til að stjórna bifreið, enda er tetrahýdrókannabínólsýra í flokki ávana- og fíkniefna sem óheimil eru á íslensku forráðasvæði. Og samkvæmt umferðarlögum mega fíkniefni ekki finnast í blóð- eða þvagsýni teknu úr ökumanni.
Samkvæmt sakarvottorði hefur stúlkan áður verið dæmd fyrir að aka bifreið undir áhrifum fíkniefna. Var litið til þess við ákvörðun refsingar.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands.