Varað við SMS skilaboðum

Ríkislögreglustjóri hefur sent frá sér aðvörun vegna SMS skilaboða sem fjölmargir hafa fengið send að undanförnu. Í skilaboðunum er eiganda símanúmersins tilkynnt um vinning í happadrætti. Ríkislögreglustjóri ráðleggur fólki að svara ekki þessum skilaboðum.

Vinningshafar eru beðnir um að hafa samband í gegnum tiltekið netfang til að fá send 945 þúsund pund, tæpar 80 milljónir króna, og að fjárhæðin sé tilbúin til greiðslu þegar í stað. Ríkislögreglustjóri segir að hér sé um að ræða enn eina aðferðina til að svíkja fé út úr fólki.

Meginreglan er sú að ef viðkomandi hefur ekki tekið þátt í neinu happadrætti, þá hefur hann varla unnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert