40-50 milljóna kr. halli

Reykjavíkurborgvill leita eftir samstarfi við aðra um rekstur hjúkrunarheimilisins Droplaugarstaði, að sögn Jórunnar Frímannsdóttur, formanns velferðarráðs Reykjavíkur. Í dag hyggst hún leggja fram tillögu á fundi ráðsins um að óskað verði eftir leyfi heilbrigðisráðuneytisins til þess fá nýjan aðila til að reka hjúkrunarheimilið. Samstaða er um málið í meirihluta borgarstjórnar, að sögn Jórunnar.

Fáist leyfi ráðuneytisins kvaðst Jórunn búast við að gerður yrði þjónustusamningur um rekstur Droplaugarstaða. „Við [Reykjavíkurborg] verðum áfram ábyrg, nema ríkið sé tilbúið að taka Droplaugarstaði að sér – sem það hefur ekki verið,“ sagði Jórunn.

Droplaugarstaðir hafa verið reknir með halla í mörg ár. Sagði Jórunn að hann stefndi í að verða 40-50 milljónir króna á þessu ári. Viðræður hafa staðið yfir við heilbrigðisráðuneytið því borginni hefur ekki tekist að lækka rekstrarkostnaðinn. Jórunn sagði slæmt að horfa á eftir skattpeningum í hallarekstur. Borginni veitti ekki af þeim fjármunum til að veita lögbundna þjónustu, en rekstur hjúkrunarheimilis félli ekki undir hana.

Jórunn sagði það hafa verið nefnt m.a. við Grund, Hrafnistu og Sóltún að taka við rekstri Droplaugarstaða. Engar formlegar viðræður hefðu þó farið fram eða neinar tölur verið sýndar um reksturinn. „En við vitum að það er áhugi á að skoða það,“ sagði Jórunn. Hún segir alls óvíst að nokkur sé tilbúinn að reka Droplaugarstaði á daggjöldum eða treysti sér til þess. Með því að samræma rekstur Droplaugarstaða annarri skyldri starfsemi megi ef til vill ná fram hagræðingu sem geri það kleift að reka hjúkrunarheimilið á daggjöldum. Stærð Droplaugarstaða sé óhagkvæm og ef til vill eigi það stóran þátt í því að ekki hefur tekist að ná niður hallarekstrinum.

Borgin á einnig hjúkrunarheimilið Seljahlíð sem líka hefur verið rekið með tapi. Í Seljahlíð er nú leitað nýrra leiða í rekstrinum og stefnt í auknum mæli að því að fara út í íbúðaform með mikilli heimaþjónustu og lofar sú breyting góðu, að sögn Jórunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert