Um 700 manns við Kárahnjúka

Haldieinhver að framkvæmdum sé að mestu lokið við Kárahnjúkavirkjun þá er það hinn mesti misskilningur. Lætur nærri að um 700 manns verði þar að störfum í sumar. Það er vissulega langt frá fjöldanum þegar mest lét, hátt í 1.800 manns fyrir um tveimur árum, en engu að síður töluverður mannafli miðað við aðrar framkvæmdir á landinu þetta sumarið.

Aðalverktakinn, Impregilo, er enn með um 350 manns á sínum vegum. Borun lauk sem kunnugt er í apríl sl. og eru risaborarnir þrír farnir úr landi. Tveir eru þegar komnir í önnur verk hjá Impregilo, annar í Kína og hinn í Sviss.

Unnið er við frágang á Jökulsárgöngum, að taka niður tæki og mannvirki og fjarlægja vinnubúðir við aðgöng 1, 2 og 3, sem og aðalbúðirnar við Laugarás. Búist er við því að síðasti mannskapur Ítalanna ljúki sér af seint í haust.

Helstu virkjanaframkvæmdir við Kárahnjúka eru vegna Hrauna- og Jökulsárveitu austan Snæfells. Vegna gjaldþrots Arnarfells tók Landsvirkjun það verk yfir fyrr á árinu og bauð það síðan út. Ístak var ráðið til verksins og er þar nú með um 200 manns. Fljótlega verður fjölgað upp í um 250 manns. Verið er að klára að steypa inntak, sprengja jarðgöng við Kelduá og gera jarðvegsstíflur þar og við Grjótá. Reiknað er með að þessum framkvæmdum ljúki ekki fyrr en á næsta ári.

Að sögn Sigurðar St. Arnalds, talsmanns Kárahnjúkavirkjunar, er Hálslónið að fyllast á ný, eftir að hafa lækkað um eina 27 metra í vetur. Þar er búist við að lónið fyllist og ekki verði þörf á að veita vatni úr nærliggjandi veitum í ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert