Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, fundaði í dag í Damaskus með sýrlenskum ráðamönnum um stöðu mála í Mið-Austurlöndum og málefni Íraks og Íran. Heimsóknin tengist áherslum ráðherra á málefni Mið-Austurlanda og nauðsyn þess að friður komist á fyrir botni Miðjarðarhafs.
Á fundum utanríkisráðherra með Bashar Al-Assad, forseta landsins, forsætisráðherranum Mohammad Naji Ottri og Walid Al-Moualem utanríkisráðherra var farið yfir stöðu og horfur í friðarviðræðum fyrir botni Miðjarðarhafs, sérstaklega viðræður Ísraela og Sýrlendinga sem eiga sér stað fyrir milligöngu Tyrkja, og friðarviðræður Ísrael og Palestínumanna. Varðandi hið síðastnefnda var rætt sérstaklega hvaða áhrif ágreiningur Fatah og Hamas hefur á úrlausn þessa máls og viðleitni Sýrlendinga til að koma á sáttum þeirra í millum.
Einnig var rætt um ástandið í Írak, þar með talinn aðbúnað og aðstoð við íraska flóttamenn í Sýrlandi, en þeir eru nú á bilinu 1,2 til 1,5 milljónir. Utanríkisráðherra skýrði frá aðkomu Íslands að málinu, m.a. ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að veita aðstoð til menntunar íraskra barna í Sýrlandi og Jórdaníu og móttöku Palestínuflóttamanna frá Írak til Íslands í sumar. Loks var rætt um málefni Líbanon og Íran, auk samvinnu Sýrlendinga við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina en fulltrúar hennar eru í Sýrlandi um þessar mundir.