„Fæðingarorlofssjóður gerði sér ekki grein fyrir þessum [aðstöðu]mun, að það skipti máli hvar tæknifrjóvgunin færi fram en það er alveg ljóst að lögin um fæðingarorlof gera kröfu um forsjá,“ segir Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, lögfræðingur og sviðsstjóri í félagsmálaráðuneytinu, spurð um mál kvenna í staðfestri samvist sem þar sem maki móðurinnar er ekki lagalega séð foreldri barns, þar sem tæknifrjóvgun fór fram erlendis, en fær samt greitt fæðingarorlof. „Strangt til tekið þurfa einstaklingar í þessari stöðu að stjúpættleiða börnin,“ segir Hanna.
„Við sjáum að það er ekki verið að framkvæma lögin alveg eftir orðanna hljóðan og því þarf að leggjast yfir framkvæmdina.“
Maki móður barns sem hefur orðið til í tæknifrjóvgun í útlöndum telst ekki foreldri þess í skilningi barnalaga og þarf því að stjúpættleiða barnið sem er ferli sem tekur 6-8 mánuði.
Samkvæmt gildandi ákvæðum laga um tæknifrjóvgun má aðeins framkvæma tæknifrjóvgun ef konan sem undirgengst aðgerðina er í hjúskap, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð sem staðið hefur samfellt í þrjú ár hið skemmsta enda hafi báðir aðilar samþykkt aðgerðina (skál. blaðam.) skriflega og við votta. Sömu lög gera aðeins ráð fyrir tæknifrjóvgun hérlendis.
Þórir Hrafnsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, segir að ætli kona að fara í tæknifrjóvgun þurfi að sýna fram á samþykki makans áður en hún á sér stað. Aðspurður um tilvik þar sem frjóvgun hefur átt sér stað erlendis og maki sýnir fram á samþykki segir Þórir að afstaða ráðuneytisins sé að lögin geri ekki ráð fyrir slíku.