Verkföll geta truflað ferðir tugþúsunda

Boðuð verkföll flugumferðarstjóra hefjast að öllu óbreyttu á föstudaginn. Fyrsta verkfallið af tuttugu hefst á föstudagsmorguninn klukkan sjö og stendur til klukkan ellefu. Næsta verkfall verður klukkan sjö til ellefu næsta mánudagsmorgun og svo koll af kolli að morgni dags til 20. júlí, takist ekki samningar. Ljóst er að verkföllin kunna að hafa röskun í för með sér fyrir tugþúsundir flugfarþega til og frá landinu og í innanlandsflugi.

Á þessum tíma árs eru brottfarir í millilandaflugi frá Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli á tímabilinu frá 07:00 til 11:00 um tuttugu talsins. Miðað við að aðeins átta flugvélum verður heimilt flugtak á þessu tímabili er augljóst að mikil röskun verður á áætlun flugvéla frá landinu. Þessi röskun mun magnast þegar verkföllin skella á dag eftir dag. Allt innanlandsflug leggst niður á verkfallstímanum.

„Við treystum því að deiluaðilar leysi ágreining sinn og að ekki komi til boðaðs verkfalls. Icelandair er ekki aðili að þessari deilu, við getum ekki haft nein áhrif á gang viðræðna og því ekki tekið neina ábyrgð á gerðum þeirra sem eiga í deilunni heldur,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Hann segir það auðvitað óviðunandi fyrir almenning, viðskiptavini, starfsmenn og fyrirtækið sjálft, sem ekki eiga neinn þátt í málinu, að svona skuli komið.

„Við erum að byrja að fá fyrirspurnir frá viðskiptavinum um hvað gerist, en við getum ekki veitt svör við því. Frá sjónarhóli flugfélags er hér um að ræða hugsanlegar truflanir á áætlun og seinkanir, utanaðkomandi óviðráðanlegar aðstæður, sem við tökum á þegar og ef til þess kemur. En við getum því miður ekki ráðlagt fólki eitt eða neitt í þessu sambandi – við sjálf hjá Icelandair trúum ekki öðru en að úr leysist,“ segir Birkir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert