Vinna ekki keyrð áfram á yfirvinnu

mbl.is

Í yfirlýsingu sem Flugstoðir hafa sent frá sér kemur fram að ekki sé rétt það sem haft var eftir Lofti Jóhannssyni, formanni Félags íslenskra  flugumferðastjóra, í fréttum í gær, um að „vinna  flugumferðastjóra sé keyrð á yfirvinnu”.  „Hver flugumferðastjóri vann að meðaltali um eina klukkustund á dag í yfirvinnu árið 2007," samkvæmt yfirlýsingu frá Flugstoðum.

„Flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík er stærsti vinnustaður íslenskra flugumferðastjóra og þar var yfirvinnan minnst á síðasta ári, eða að meðaltali 17 stundir á mánuði hjá hverjum  flugumferðastjóra. Í flugturninum í Reykjavík var meðalfjöldi yfirvinnustunda 24 á mánuði, 16 á Akureyrarflugvelli og 20 í flugturninum í Vestmannaeyjum. Vinnuskylda flugumferðastjóra er 38 stundir á viku og heildarlaun fluguferðastjóra eru að meðaltali 809.000 krónur á mánuði.

Mest þörf er fyrir yfirvinnu flugumferðastjóra yfir sumarmánuðina, þegar flugumferð er mest bæði milli landa og í innanlandsflugi. Á sama tíma eiga flugumferðastjórar rétt á fjögurra vikna sumarleyfi. Að auki fá þeir fjögurra vikna leyfi yfir vetrartímann sem einnig þarf að manna. Framangreindar tölur um yfirvinnu geta varla talist háar á íslenskan mælikvarða enda hafa lítil vandkvæði verið á því að fá flugumferðastjóra til að taka að sér þessa aukavinnu.

Töluverð aukning var í flugumferð árin fyrir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001. Þá þegar var farið að vinna að endurskipulagningu flugumferðastjórnar hérlendis og tæknilausnum sem miða að því að auka framlegð flugumferðastjóra og létta af þeim álagi. Þessar aðgerðir hafa reynst vel á síðustu misserum þegar flugumferð hefur aukist að nýju," að því er segir í yfirlýsingu frá Flugstoðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert