Virkjanirnar í Þjórsá færast nær veruleika

Aðalskipulag sveitarfélaganna við neðri hluta Þjórsár er nú á góðri leið með gera ráð fyrir þremur virkjunum á svæðinu, Urriðafossvirkjun, Hvamms- og Holtavirkjun. Breyting Skeiða- og Gnúpverjahrepps til samræmis við tvær síðarnefndu virkjanirnar gekk í gegn á mánudag og verður því auglýst. Að sama skapi auglýsti Flóahreppur í síðustu viku aðalskipulag fyrir hinn gamla Villingaholtshrepp, sem gerir ráð fyrir Urriðafossvirkjun.

Ásahreppur og Rangárþing ytra hafa lokið þessari vinnu. Skipulagsstofnun gefur umsögn um aðalskipulag og umhverfisráðherra staðfestir það formlega en skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögunum.

Hvað þau snertir er því bara eftir að gera deiliskipulag, um þriggja mánaða ferli gangi það snurðulaust fyrir sig, og gefa út framkvæmdaleyfi þegar þar að kemur.

Sveitarfélögin eru reyndar ekki allsráðandi. Landsvirkjun vinnur að samningum við landeigendur. „Við höfum að undanförnu verið að ræða við landeigendur um landnot og bætur. Erum búin að semja við nokkra og eigum eftir að semja við ýmsa, bæði eigendur að jörðum þar sem Títansamningarnir gilda og landeigendur sem eiga sjálfir vatnsréttindi,“ segir Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, sem fagnar fyrrgreindri aðalskipulagstillögu Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Hann segir að metið verði hvenær rétt sé að sækja um virkjanaleyfi til iðnaðarráðuneytis. Sú umsókn má ekki koma of snemma í skipulagsferlinu því frá útgáfu leyfisins hefur Landsvirkjun 90 daga til að ljúka þeim málum alfarið.

Friðrik býst ekki við því að framkvæmdir við virkjanirnar sjálfar geti hafist fyrr en síðari hluta næsta árs og samsinna aðrir viðmælendur því. Ráðgert er að fara í virkjanirnar þrjár og Búðarhálsvirkjun, sem er uppi við mót Tungnaár og Þjórsár, í tímaröð frá efstu virkjun til neðstu. Öll leyfi eru til fyrir Búðarhálsvirkjun og formlega ekkert að vanbúnaði að hefja þar framkvæmdir. Út frá stjórnsýslunni eru því ekki mörg skref eftir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert