Veiðimaður fann álftarunga flækta í tauma uppi við Helluvatn í gær. Of mikið um að fólk skilji tauma eftir á víðavangi.
Þegar Carl Jóhann Gränz var á ferð uppi við Helluvatn, innan við Elliðavatn, um hádegið í gær tók hann eftir álftapari með þrjá unga. Er hann nálgaðist fór parið í vatnið en hafði bara einn unga með sér. Þegar hann var kominn alveg að sá hann að tveir unganna voru pikkfastir í gömlum taumi, um 3 metra löngum, og hafði hann vafist um búk og fætur. Lágu ungarnir algerlega bjargarlausir á jörðinni.
Carl beygði sig þá niður og fór að losa ungana. „Eftir að ég losaði fyrri ungann kom önnur álftin upp á bakkann aftur, hvæsandi og glennti út vængina. Ég var alveg á því að hún myndi bara rjúka í mig og stóð alls ekki á sama. Það eina sem mér datt í hug var að reyna að hræða hana frá. Ég stóð þess vegna upp og rétti út með hendurnar og vildi sýna henni hvað ég væri stærri en hún.“
Carl segir álftina hafa róast aðeins við þetta og bakkaði hún aftur út í vatnið. Á þeim tíma tókst honum að losa seinni ungann og sleppti honum í vatnið. Við það kom álftin aftur syndandi á fleygiferð. „Þegar hún svo sér ungann hægir hún á sér og stoppar síðan þegar unginn er kominn til hennar. Þá lítur hún á mig og hneygir sig tvisvar sinnum!“
Carl segir að það hafi verið mjög skemmtilegt að sjá viðbrögð álftarinnar, svo virtist sem hún hefði verið að þakka fyrir sig.
Eftir að ungarnir voru komnir út í syntu þeir um með foreldrum sínum en annar fóturinn hjá öðrum unganum virtist þó vera að angra hann. „Ég vona bara að það lagist,“ segir Carl.
Carl segist alltof oft taka eftir taumum sem liggja hér og þar við veiðistaði. Í þetta sinn var taumurinn stuttur en stundum séu þetta jafnvel línur upp á tugi metra. „Menn halda að þetta sé lítið mál, þeir klippa þetta af og henda síðan á jörðina. Hins vegar geta til dæmis ungar flækt sig mjög auðveldlega í þessu þegar þeir vappa þarna um. Þetta sem ég sá var gróf áminning um að menn verða að passa sig á þessu. Það þarf ekki mikið til svo illa fari.“
Hann segir að margir hugsi ekkert út þessi mál og það verði að laga. Svo ætti fólk að sjálfsögðu að hirða upp tauma og annað drasl sem það rekst á við veiðistaði. Margir gerðu það nú þegar en þeim samviskusömu mætti alltaf fjölga.