Boðuð verkföll flugumferðarstjóra munu hafa mikla röskun í för með sér fyrir innanlandsflugið. Ekkert verður flogið innanlands þá fjóra klukkutíma, sem verkfallið stendur hvern dag.
Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, segir að félagið sé að skoða stöðuna og til hvaða ráðstafana verði gripið. Hann nefnir sem dæmi, að komi boðað verkfall á morgun til framkvæmda, verði ekkert flogið milli klukkan 7 og 11 fyrir hádegi. Á þeim tíma séu áætluð um 16 flug og megi gera ráð fyrir að um 500 farþegar verði bókaðir í þau þegar þar að kemur.
Verkfallið muni þó ekki einungis hafa áhrif á þessa farþega heldur megi búast við röskunum á öðru flugi þennan dag. Hann bendir farþegum á að fylgjast vel með fréttum og heimasíðu félagsins, www.flugfelag.is,en þar verður upplýst frekar um stöðuna eftir því sem nær dregur.
Flugfélagið Ernir er einnig að skoða stöðuna. Hörður Guðmundsson framkvæmdastjóri segir að 6 áætlunarferðir séu áformaðar á morgun og ljóst sé að mikil röskun verði hjá félaginu. Hann telur að félagið muni geta klárað þessar ferðir þótt þær færist fram á daginn.
Verst komi þetta niður á fólki sem notar áætlunarflugið til að reka erindi í borginni, t.d. hjá stjórnsýslunni. Þessir farþegar vilja fara til Reykjavíkur að morgni og heim að kveldi.