Ábyrgð samningsaðila í kjaradeilu flugumferðarstjóra er mikil gagnvart almenningi, enda geta flugtafir vegna verkfalls valdið þeim tjóni sem ferðast með flugvélum. Nú er háannatími hjá ferðaskrifstofum og gríðarlega margir á faraldsfæti. Þeir sem ætla sér út fyrir landsteinana á næstunni velta því kannski fyrir sér hvort fyrirtæki bæti slíkt tjón. Helst koma þar til greina flugfélög, ferðaskrifstofur eða tryggingafélög.
Flestir kaupa sér ferðatryggingar, sem yfirleitt eru hluti af heimilistryggingu eða tilheyra tryggingum sem fylgja greiðslukortum.
Almennt eru kortatryggingarnar víðtækari en heimilistryggingarnar og helst von á bótum úr þeim. Þær tryggingar miðast hins vegar við hversu langar tafirnar eru en ekki útlagðan kostnað vegna þeirra. Flugumferðarstjórar hyggjast leggja niður vinnu í fjóra tíma á dag en skv. upplýsingum frá Sjóvá og VÍS fást ekki greiddar bætur fyrir tafir skemmri en átta tíma á kortatryggingum sem fyrirtækin sjá um, og þá fyrir hverja klukkustund umfram lágmarkið. Að sögn Rúriks Vatnarssonar, forstöðumanns Vöruþróunar hjá Sjóvá, fást t.d. allt að 48.000 króna bætur fyrir hverja klukkustund á fyrirtækja- eða platínukorti frá American Express eða Mastercard en um 18.000 krónur á gullkorti. Ef tafirnar verða styttri en svo greiðist hins vegar ekki neitt út. Miðað við þetta virðist tilhögun verkfallsins til þess fallin að valda neytendum tjóni sem þeir fá engar bætur fyrir.
Ekki virðist heldur hvíla mikil ábyrgð á flugfélögum. Flugumferðarstjórar eru ekki starfsmenn þeirra og þau bera ekki ábyrgð á verkfallinu, ef af því verður. Hvað þau snertir telst verkfallið því til óviðráðanlegra aðstæðna og þau bera ekki ábyrgð á tjóni sem hlýst af því, að sögn forsvarsmanna þeirra.
Reglugerð Evrópusambandsins um skaðabætur og aðstoð til farþega, sem gildir á Íslandi, leggur flugfélögum skyldur á herðar vegna tafa, svo sem veitingar og símaþjónustu. Hún mælir þó ekki fyrir ókeypis gistingu fyrir farþega eða endurgreiðslu á flugmiða, nema töf verði meiri en fimm klukkustundir, miðað við ákveðna lengd flugferðar innan EES-svæðisins. Í reglugerðinni eru verkföll sérstaklega tiltekin sem óviðráðanlegar aðstæður. Sem fyrr segir leggja flugumferðarstjórar niður vinnu í fjóra tíma á dag.