Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, hefur áhyggjur af boðuðum samdrætti í flugi til landsins á komandi vetri og segir það líka mjög alvarlegt mál, verði af fyrirhuguðum verkföllum flugumferðarstjóra. Hún segir að snúa verði vörn í sókn og hið opinbera þurfi að leggja til fé með hagsmunafyrirtækjum í markaðssókn á Íslandi á sambærilegan hátt og gert var eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum fyrir tæplega sjö árum.
Flugumferðarstjórar hafa boðað fyrsta verkfall af 20 í fyrramálið. Erna segir skelfilegt að fámennur hópur hálaunamanna skuli taka þetta til bragðs því verkföll flugumferðarstjóra hafi gríðarleg áhrif.
Í fyrsta lagi skaði þau flugfélögin mikið. Þau gangi nú í gegnum gríðarlegar efnahagslegar þrengingar vegna hækkunar eldsneytisverðs og minnkandi eftirspurnar og séu á fullu í erfiðum hagræðingaraðgerðum.
Í öðru lagi fæli verkföll og vinnustöðvanir, sem trufli flug, ferðamenn frá. Þannig hafi það alltaf verið og verði áfram. „Þetta er grafalvarleg staða,“ segir hún.
Icelandair og Iceland Express hafa greint frá miklum samdrætti í flugi í komandi vetraráætlun. Erna segir það gefa auga leið að verði stórlega dregið úr flugi til landsins hafi það áhrif á ferðamannastrauminn. Hins vegar beri að hafa í huga að ýmislegt annað en samdráttur í flugi hafi áhrif á komu erlendra ferðamanna. Þar megi nefna efnahagsástandið heima fyrir hjá ferðamönnunum og um þessar mundir þrengi víða að í viðskiptalöndum Íslands.
Að sögn Ernu hefur eitthvað verið um afbókanir ferðamanna til landsins í sumar. Hljóð í mönnum sé misjafnt. Talsmenn sumra hótela kvarti undan lakari nýtingu í júní samanborið við sama tíma í fyrra og margir hafi áhyggjur af ónógum bókunum í sumar og sérstaklega í haust, vetur og á næsta ári. Gengið hafi verið frá mörgum ferðum til landsins fyrir löngu og því megi almennt búast við að hlutirnir gangi upp í sumar en framhaldið sé áhyggjuefni.