Ríkisendurskoðun leggur til að stjórnvöld kanni möguleika á að breyta stofnanaskipan samgöngumála þannig að sjálfstæðri stofnun verði falið að annast alla stjórnsýslu á sviði samgöngumála. Taki hún við stjórnsýsluverkefnum Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar auk verkefna Flugmálastjórnar og Umferðarstofu.
Svo segir í fréttatilkynningu frá Ríkisendurskoðun í dag, í tilefni af því að stofnunin sendir frá sér stjórnsýsluúttektina „Samgönguframkvæmdir.“
Annarri stofnun verði falin umsýsla allra samgönguframkvæmda og þeirri þriðju að annast rekstur og viðhald samgöngumannvirkja. Óháð slíkum breytingum þurfi jafnframt að þróa reglur og aðferðir sem stuðli að hagkvæmari og árangursríkari samgönguframkvæmdum en verið hafa.
Ennfremur telur Ríkisendurskoðun að samgönguáætlunum sé breytt of mikið og of ört og komi það niður á markvissum undirbúningi framkvæmda. Þá þurfi að leggja aukna áherslu á að meta og taka mið af arðsemi framkvæmda og halda betur utan um kostnaðaráætlanir á öllum undirbúningsstigum þeirra.
Stjórnsýsluúttektin í heild