Opinbert hlutafélag um rekstur á Keflavíkurflugvelli stofnað

Kristján L. Möller skrifar undir stofngerð fyrir félagið, Andri Árnason, …
Kristján L. Möller skrifar undir stofngerð fyrir félagið, Andri Árnason, lögmaður og fundarstjóri stendur hjá.

Stofnfundur opinbers hlutafélags um þjónustu og uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli var haldinn í dag. Félagið tekur yfir rekstur Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar frá og með 1. janúar 2009. Félagið hlaut nafnið Keflavíkurflugvöllur ohf.

Frá þessu greinir Samgönguráðuneytið í fréttatilkynningu.

Kristján L. Möller samgönguráðherra sagði meðal annars í ávarpi á fundinum að með stofnun hins nýja félags væri stefnt að aukinni hagræðingu og skilvirkni og að unnt væri að leggja grundvöll að margs konar nýrri starfsemi og þjónustu í flugi og viðskiptum.

Félagið er stofnað samkvæmt heimild í lögum sem samþykkt voru á Alþingi 30. maí. Samgönguráðherra fer með hlut ríkisins í félaginu og framkvæmd laganna. Á stofnfundinum voru samþykktir fyrir félagið samþykktar og stofngerð undirrituð. Þá skipaði samgönguráðherra stjórn félagsins sem starfa skal fram að fyrsta aðalfundi þess.

Fimm manna aðalstjórn skipa: Jón Gunnarsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigrún Jónsdóttir, Ellert Eiríksson og Pétur J. Eiríksson. Varamenn eru: Eysteinn Eyjólfsson, Guðlaug Finnsdóttir, Jón Norðfjörð, Björk Guðjónsdóttir og Magnea Guðmundsdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka