Öryggishnappar á salerni

Flest kynferðisbrot á skemmtistöðum eru framin á salernum.
Flest kynferðisbrot á skemmtistöðum eru framin á salernum. mbl.is/ÞÖK

Undanfarin fimm ár hafa 35 einstaklingar leitað aðstoðar til Neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis á veitinga- og skemmtistöðum. Þau brot sem eiga sér stað inn á skemmtistöðum eru langoftast framin á salernum staðanna. Mannréttindaráð Reykjavíkur skipaði sl. vetur starfshóp til að kanna öryggismál á skemmtistöðum í Reykjavík og koma með tillögur sem spornað gætu við kynferðisofbeldi á og við skemmtistaði.

Í skýrslu starfshópsins kemur fram að mikilvægt er að huga betur að öryggi gesta inn á veitinga og skemmtistöðum og eru til þess ýmsar leiðir færar. Til dæmis er lagt til að eftirlit á salernum verði aukið og að komið verði fyrir öryggishnöppum á salernum.

Auka fræðslu meðal starfsfólks

Einnig eru tillögur um aukna fræðslu bæði fyrir starfsfólk veitinga og skemmtistaða, eigendur og almenning um alvarleika þeirra brota sem eiga sér stað á stöðunum.

Lagt er til að unnin verði úttekt á þeim atriðum sem varða öryggismál á veitinga og skemmtistöðum og er þá sjónum sérstaklega beint að innra byrði, s.s aðgengi að salernum, læsingum og viðhaldi almennt.

Einnig er sett fram tillaga um viðurkenningar borgaryfirvalda til þeirra staða sem huga vel að öryggi gesta sinna og mun hópurinn í sumar vinna frekar að útfærslu þeirrar hugmyndar sem og annarra.

Skýrsla starfshópsins var kynnt borgarráði í dag. Þegar hefur verið ákveðið að starfshópurinn haldi áfram að útfæra nánar þær tillögur og verkefni sem eru í skýrslunni. Lykilatriði við áframhaldandi vinnu á þessum vettvangi er samstarf allra aðila sem að málum koma og er lagt til í skýrslunni að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að slíku samstarfi. Einnig verður unnið að verkefninu í samráði við aðgerðarhóp miðborgarinnar.

Í starfshópnum áttu sæti, auk fulltrúa frá mannréttindaráði, fulltrúar frá Félagi kráareigenda, Samtökum ferðaþjónustu, frá lögreglu höfuðborgarsvæðisins og Neyðarmóttöku vegna nauðgunarmála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert