Verð á eldsneyti hefur verið lækkað á flestum bensínstöðvum um tvær krónur á lítra. Algengt verð á bensínlítra í sjálfsafgreiðslu er nú 174,40 krónur en það hækkaði síðast fyrir tveimur dögum um þrjár krónur, í 176,40. Lítrinn af díselolíu kostar víða 190,80 krónur í sjálfsafgreiðslu. Lítrinn af díselolíu hækkaði einnig fyrir tveimur dögum um þrjár krónur í 192,80.
Í tilkynningu frá N1 kemur fram að ástæða lækkunarinnar er lækkun heimsmarkaðsverðs á eldsneyti og styrking krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar.