Fyrirspurn hefur borist til skipulagsstjóra Reykjavíkur um breytingu á deiluskipulagi Kvosarinnar í þá veru að rífa niður húsið Austurstræti 6 og byggja hótel á lóðinni.
Með fyrirspurninni fylgdu uppdrættir að nýja hótelinu, eftir Björn Ólafs, arkitekt í París. Lóðareigandi er Pétur Þór Sigurðsson hæstaréttarlögmaður.
Á lóðinni Austurstræti 6 er nú skrifstofuhús á fimm hæðum með kjallara. Hæð nýbyggingar og þak yrðu eins og á núverandi byggingu. Gert er ráð fyrir því á teikningum að á 2.-5. hæð verði byggt út fyrir lóð sem nemur einum metra. Salarhæðir eiga að minnka lítillega og yrði húsið því fimm hæðir og ris.
Jafnframt er óskað leyfis til að tengja hið nýja hús með glergangi á 2. hæð við hótel, sem Pétur Þór Sigurðsson hyggst reisa við Vallarstræti, sem liggur meðfram Austurvelli.
Á fundi skipulagsstjóra hinn 13. júní sl., þar sem fyrirspurnin var kynnt, var samþykkt að kynna hana fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, formanni skipulagsráðs.