Fulltrúar Alcoa, ríkisstjórnar Íslands og Norðurþings framlengdu í dag viljayfirlýsingu um rannsóknir á hagkvæmni þess að reisa álver á Bakka við Húsavík, til 1. október árið 2009. Um er að ræða framlengingu og uppfærslu á viljayfirlýsingu þessara aðila sem undirrituð var í maí árið 2006.
Full afköst álvers árið 2015
Fyrsta og öðrum hluta hagkvæmniathugana er lokið samkvæmt fyrri viljayfirlýsingu. Niðurstöður þeirra gáfu tilefni til að haldið yrði áfram með verkefnið. Ákveðið hefur verið að framlengja vinnu við þriðja hlutann til 1. október á næsta ári til þess að hægt verði að ljúka þeim verkefnum sem aðilar settu sér 2006, áður en lokaákvörðun væri tekin um byggingu álvers á Bakka. Áfram er gert ráð fyrir því að álver á Bakka nái fullum afköstum árið 2015, verði niðurstaða athugana jákvæð, að því er segir í tilkynningu.
Meðal þess sem aðilar viljayfirlýsingarinnar munu vinna að á tímabilinu má nefna að mati á umhverfisáhrifum álvers verður lokið, Alcoa mun halda áfram viðræðum við orkufyrirtæki, rannsóknum á efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum álvers í sveitarfélaginu og nágrenni verður lokið, lögð verða fram gögn fyrir starfsleyfi álvers, unnið verður að útfærslu á hafnaraðstöðu og fleira.
Samhliða framlengingu á viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, Alcoa og Norðurþings hefur verið unnið að framlengingu á viljayfirlýsingum Alcoa og Landsvirkjunar um raforkusölu og Alcoa og Landsnets um orkuflutning.