11 ára stelpur hafa áhyggjur af þyngd

Fimmtu hverri 11 ára íslenskri stelpu finnst hún vera of feit, eða 20%, en 38% 15 ára stelpna. Íslensku stelpurnar telja sig, eins og stelpur í mörgum öðrum löndum, miklu feitari en þær eru í raun og veru.

Þetta er meðal þess sem kom fram í könnunum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á heilsu og líðan ungmenna í 37 löndum.

Raunveruleg þyngd íslenskra stelpna, miðað við alþjóðlega líkamsþyngdarstuðulinn BMI fyrir unglinga, er svipuð og hjá mörgum þjóðum, að sögn Þórodds Bjarnasonar, prófessors við Háskólann á Akureyri, sem stjórnaði rannsókninni á Íslandi. „Um 12% 15 ára íslenskra stelpna eru of feit, sem er svipað og hjá mörgum öðrum þjóðum,“ greinir Þóroddur frá.

Strákarnir með þeim þyngstu

Hluti skýringarinnar á því hversu miklar áhyggjur stelpur hafa af þyngdinni er samband mæðra og dætra, að því er sænski sálfræðingurinn Kristina Elfhag, sem starfar við Karólínsku stofnunina í Stokkhólmi, greinir frá í viðtali við Svenska Dagbladet.

Hún segir börn herma eftir mæðrum sínum. „Þær kvarta undan þyngd sinni og eru almennt óánægðar með líkama sinn. Auðvitað hefur þetta áhrif.“

Sálfræðingurinn bendir jafnframt á að mæður borði sætindi sér til huggunar og haldi síðan í við sig. Slíkt sé ekki heppilegt fyrir börn sem eigi ekki að hugsa um kaloríur.

Kröfur um ákveðið útlit eiga einnig þátt í því hversu mikið stelpur hugsa um þyngd, að mati sálfræðingsins. „Nú eiga börn að líta út eins og fullorðnir, þau eiga að vera í þröngum fatnaði og buxum sem ná ekki upp í mittið. Þetta vekur mikla athygli á sjálfum líkamanum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert