Ekkert mark er takandi á yfirlýsingu umhverfisráðuneytisins vegna ályktunar stjórnar Blaðamannafélags Íslands um ísbjarnarmálið á Skaga. Fréttamenn sem fylgdust með málinu staðfesta að yfirvöld hafi takmarkað aðgang þeirra að birninum eftir að hann var skotinn. Þetta segir Arna Schram, formaður BÍ, í yfirlýsingu sinni.
Yfirlýsingin í heild sinni:
„Fréttamenn sem fylgdust með ísbjarnarmálinu við bæinn Hraun á Skaga í síðustu viku staðfesta að yfirvöld hafi takmarkað aðgang þeirra að birninum eftir að hann var skotinn. Það gerði lögreglan, að beiðni Umhverfisstofnunar, meðal annars með því að leggja bíl sínum þvert á þjóðveginn og hindra þannig störf fréttamanna á vettvangi. Eftir mótmæli fréttamanna var hins vegar fallist á stutta myndatöku.
Þessar staðreyndir tala sínu máli og því ekkert mark takandi á yfirlýsingu umhverfisráðuneytisins vegna ályktunar stjórnar BÍ um málið. Ekkert hefur komið fram sem sýnir fram á nauðsyn þess að halda fréttamönnum frá, með lögregluvaldi, í rúmlega kílómetra fjarlægð á meðan sýnatökur úr dýrinu fóru fram. Aðgerðirnar fólu í sér ritskoðun sem gengur gegn tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.
Sjálfur umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, staðfesti þetta í hádegisviðtali Stöðvar 2 í síðustu viku. Þar sagði hún að vilji hefði staðið til þess að tryggja með öllum ráðum að ekki yrðu sendar út myndir "sem gæfu kannski skilaboð sem við vildum alls ekki gefa við þessar aðstæður," eins og hún orðaði það.
Blaðamannafélag Íslands ítrekar því mótmæli sín og hvetur ráðuneytið, Umhverfisstofnun og lögreglu til að leita leiða til að koma í veg fyrir að umræddar aðgerðir endurtaki sig. Í lýðræðislegu samfélagi verða fjölmiðlar að hafa frelsi til að athafna sig á vettvangi fréttnæmra atburða.
Arna Schram, formaður Blaðamannafélags Íslands.“