Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur komist að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu að starfsemi Íbúðalánasjóðs í núverandi mynd gangi gegn ríkisstyrkjareglum EES-samningsins. ESA mun halda rannsókn sinni áfram og m.a. kanna það sem kallast „nýr ríkisstyrkur“, eða stuðningur ríkis til Íbúðalánasjóðs í formi undanþágu frá greiðslu ríkisábyrgðargjalds sem hafi komið til eftir að EES-samningurinn tók gildi.
Í tilkynningu ESA kemur fram að stofnunin muni fella niður rannsókn sem hefur verið í gangi frá júní 2006 í kjölfar þess að EFTA-dómstóllinn ógilti fyrri úrskurð stofnunarinnar, og halda rannsókn sinni áfram undir nýjum formerkjum. ESA mun nú rannsaka þá þætti sem voru til skoðunar sem eldri ríkisstyrk, þ.e. ríkisstyrk sem hafi komið til áður en EES-samningurinn tók gildi. Jafnframt kemur fram að ESA hafa ákveðið að opna rannsókn á því sem kallast „nýr ríkisstyrkur“, þ.e. stuðningur ríkis til Íbúðalánasjóðs í formi undanþágu frá greiðslu ríkisábyrgðargjalds sem hafi komið til eftir að EES-samningurinn tók gildi.