Vodafone hefur nú tekið í notkun GSM senda á Gunnólfsvíkurfjalli, á Þórshöfn á Langanesi, Viðarfjalli í Þistilfirði, á Raufarhöfn, Snartarstaðanúpi á Melrakkasléttu og við Tjörnesvita. GSM samband er því í fyrsta sinn komið á stærstan hluta Tjörness og stór svæði á Melrakkasléttu.
Vegfarendur um Öxafjarðarheiði geta einnig notað GSM síma á hluta heiðarinnar en þar hefur fram til þessa ekki verið neitt GSM samband.
Þá hafa verið gangsettir þrír sendar á sunnanverðum Vestfjörðum, tveir í Arnarfirði og einn á Bíldudal. Sendarnir við Arnarfjörð tryggja GSM samband við fjörðinn og upp á Hrafnseyrarheiði en sendirinn á Bíldudal þjónustar kaupstaðinn auk þess að ná vel upp á Hálfdán – heiðina milli Bíldudals og Tálknafjarðar. Einnig er komið GSM samband á stóra hluta Dynjandisheiðar.