Samþykkt að auka heimildir til leiguíbúðalána

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu félags- og tryggingamálaráðherra um auknar heimildir til leiguíbúðalána á almennum markaði með almennum lánskjörum.

Samþykkt var að veita Íbúðalánasjóði heimild til veitinga slíkra lána  fyrir fimm milljarða króna. Þá var samþykkt að setja þau skilyrði fyrir slíkum lánum að fyrir liggi mat óháðra aðila á umræddu leiguhúsnæði. Einnig er gerð krafa um að eignir hafi náð fokheldisstigi til að vera lánshæfar og að fyrir liggi þinglýstur leigusamningur, sé um húsnæði sem áður hefur verið ætlað til einkanota að ræða.

Þá er það skilyrði sett að slík lán verði ekki veitt vegna eigna í sveitarfélögum þar sem sem leiguíbúðir fjármagnaðar af Íbúðalánasjóði standa auðar.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu að heimildin nái til leiguíbúðalána á almennum markaði vegna söluíbúða sem ekki seljast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert