Sumarútsölurnar í verslunarkjörnum höfuðborgarsvæðisins eru snemma á ferðinni í ár. M.a. eru útsölur hafnar í Kringlunni og Smáralind.
Þrátt fyrir umræðu um kreppu virðist lítinn bilbug að finna á verslunarfólki sem segir fólk vera jafn duglegt að skoða vörur og versla og á sumarútsölum fyrri ára. Einhverjir könnuðust þó við að færri legðu leið sína á útsölurnar og í verslunarmiðstöðvarnar yfir höfuð á þessum síðustu og verstu tímum. Almennt var samstaða um að aðsókn, sala og velta væri svipuð og undanfarin ár. Einn verslunarstjóri gerði því skóna að fólk ferðaðist saman í bíl til að spara eldsneytiskostnað upp í útsöluvarning. Í öllu falli virtust verslunargestir sem skoðuðu útsöluvarning í gær ekki láta krepputal hafa áhrif á kaupgleðina.