Ungir jafnaðarmenn gagnrýna Samfylkinguna

Ungir jafnaðarmenn átelja ráðherra Samfylkingarinnar harðlega fyrir að stuðla að tveimur nýjum álverum á Íslandi og ganga þar með gegn stefnu flokksins í umhverfismálum. Um leið ítreka UJ andstöðu sína við byggingu fleiri álvera í landinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá UJ.

„Fyrir síðustu kosningar til Alþingis gaf Samfylkingin út stefnuna Fagra Ísland. Í henni kemur meðal annars fram að slá skuli „ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð." Þeirri vinnu er ekki lokið.

Nú hefur Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra tekið skóflustungu að álveri í Helguvík og Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra endurnýjað viljayfirlýsingu um byggingu álvers á Bakka. Ungir jafnaðarmenn telja að ráðherrarnir hafi með þessu farið gróflega gegn stefnu flokksins. Ekki þýðir að skýla sér bak við að ríkisstjórnin hafi ekki tæki til að stöðva það sem þegar hafi verið í farvatninu þegar Samfylkingin tók við ríkisstjórnartaumunum fyrir rúmu ári. Lágmark væri þá að slá sig ekki til riddara með því sem er andstætt stefnu flokksins.

Ungir jafnaðarmenn styðja stefnu Samfylkingarinar þar sem lögð er áhersla á að örva nýsköpun og bæta aðstæður fyrir hátækniiðnað og sprotafyrirtæki. Skemmst er að minnast tillagna flokksins um Nýja atvinnulífið sem voru margverðlaunaðar á Sprotaþingi árið 2007.

Ungir jafnaðarmenn hafa lengi bent á að virkjun neðri hluta Þjórsár komi ekki til greina og benda á að Landsvirkjun heyrir undir iðnaðarráðherra, sem getur beitt sér fyrir að hætt verði við áform um að virkja. Að sjálfsögðu kemur eignarnám aldrei til greina og vilja Ungir jafnaðarmenn rifja upp orð forstjóra Landsvirkjunar um að orkan yrði ekki notuð til að knýja álver.

Að lokum vona Ungir jafnaðarmenn að ráðherrar Samfylkingarinnar sjái að sér og beiti sér gegn fleiri mengandi álverum. Einnig er skorað á Sjálfstæðisflokkinn, samstarfsflokkinn í ríkisstjórn, að stíga inn í nútímann, beita sér í þágu umhverfisins og hætta að vera flokkur hinnar mengandi stóriðju. Það er hugrekki að horfa til framtíðar í stað skammtímalausna sem valda alvarlegum skaða til lengri tíma litið," samkvæmt tilkynningu UJ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert