Verkfall flugumferðarstjóra er hafið en samningafundur í kjaradeilu þeirra stendur enn. Hann hefur nú staðið frá því klukkan tíu í gærmorgun. Samkvæmt verkfallsboðun flugumferðarstjóra stendur verkfallið á milli klukkan 7 og 11 í dag eða fjórar klukkustundir.
Á vef Iceland Express kemur fram að enn sé óljóst hvaða áhrif þetta hafi á flug til og frá Íslandi. Þó hefur verið ákveðið að breyta brottfarartíma tveggja ferða.
Áætluð brottför flugs FHE 286 til Barcelona er nú kl. 06:20 en var áður 07:00. Áætluð brottför flugs FHE 121 til Frankfurt Hahn er nú kl. 15:30 en var áður var 07:00.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma á vef Icelandair verða tafir á átta flugum félagsins sem áttu að fara frá Keflavík á verkfallstíma í morgun. Þá hefur einu flugi, til Kaupmannahafnar, verið aflýst.
Allt innanlandsflug liggur niðri á þeim tíma sem verkfallsaðgerðir standa yfir.