Esjudagurinn var haldinn hátíðlegur í dag á vegum Ferðafélags Íslands og SPRON. Boðið var upp á ýmsar Esjugöngur, bæði upp á topp og skemra. Skógræktarfélag Reykjavíkur gaf plöntur í tilefni dagsins og meðal skemmtiatriða voru Karíus og Baktus.
Frá þessu greinir í fréttatilkynningu frá FÍ og SPRON í dag. Þar segir ennfremur:
„Ferðafélag Íslands og SPRON hafa átt samstarf í fjölmörg ár. Áhersla hefur verið lögð á að kynna Esjuna sem einstakt útivistarsvæði við borgarmörkin. Saman hafa SPRON og Ferðafélagið unnið að gerð göngustíga og merkinga. Esjan er eitt vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarbúa og ganga um 15.000 manns á fjallið árlega.“