Óður til náttúrunnar í Laugardal

Björk Guðmundsdóttir á sviðinu á Náttúru tónleikunum í kvöld
Björk Guðmundsdóttir á sviðinu á Náttúru tónleikunum í kvöld mbl.is/Kristinn

Tónleikunum Náttúru lauk rétt fyrir klukkan 11 í kvöld í Laugardalnum en þeir hófust um fimmleytið í dag. Talið er að um og yfir þrjátíu þúsund manns hafi mætt á tónleikana þegar mest var samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Síðust á svið í kvöld var Björk Guðmundsdóttir. Fyrstir á svið í kvöld voru Radium, samstarfsverkefni Finnboga Péturssonar og Ghostigital, Ólöf Arnalds tók síðan við og SigurRós fylgdi þar á eftir.

Síðasta lagið sem Björk tók í kvöld var lagið  „Declare Independence“/ Lýsið yfir sjálfstæði,  sem hún hefur meðal annars tileinkað sjálfstæðisbaráttu Færeyinga, Kosovo og Tíbets á tónleikaför sinni um heiminn undanfarna fjórtán mánuði þar sem hún hefur kynnt hljómplötuna Volta. Síðustu orð Bjarkar á tónleikunum voru „náttúra, náttúra". 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fór fólk að yfirgefa tónleikasvæðið talsvert áður en tónleikunum lauk meðal annars vegna kulda. Telur lögregla að allt hafi farið vel fram í Laugardalnum og ekki hefur verið tilkynnt um nein meiri háttar óhöpp í tengslum við tónleikana. 

SigurRós á tónleikunum Náttúra í kvöld
SigurRós á tónleikunum Náttúra í kvöld mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka