Samkomulag hefur náðst milli fulltrúa 23ja stéttarfélaga háskólamanna og fjármálaráðuneytisins um framlengingu á kjarasamningum aðila til loka mars 2009. Kjarasamningurinn er undirritaður með fyrirvara um samþykki félagsmanna stéttarfélaganna.
Hækkun rúmlega 6% að meðaltali
Laun félagsmanna þeirra stéttarfélaga sem undirrituðu samninginn hækka um rúm 6% að meðaltali frá 1. júní. Að auki felur samningurinn í sér endurskoðun á starfsmenntunarmálum háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna.
Háskólamenn taka á sig kjaraskerðingu
Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM, segir í tilkynningu samningsmarkmið hópsins hafa náðst að hluta til. „Með þessum samningi eru háskólamenn að taka á sig kjaraskerðingu þar sem hækkun launa er engan veginn næg til að vega upp á móti verðbólguspá næstu mánaða. Við völdum skásta kostinn í þeirri þröngu stöðu sem um var að ræða. En samningstíminn er stuttur og við setjumst aftur að samningaborði næsta vor.”
Eftirtalin aðildarfélög BHM undirrituðu samninginn:
Dýralæknafélag Íslands, Félag geislafræðinga, Félag háskólakennara, Félag háskólakennara á Akureyri, Félag háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins, Félag íslenskra félagsvísindamanna, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Félag lífeindafræðinga, Félagsráðgjafafélag Íslands, Iðjuþjálfafélag Íslands, Kennarafélag Kennaraháskóla Íslands, Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga, Leikarafélag Íslands, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði, Stéttarfélag lögfræðinga, Sálfræðingafélag Íslands, Stéttarfélag sjúkraþjálfara, Þroskaþjálfafélag Íslands og Fræðagarður (áður Útgarður og Félag íslenskra fræða kjaradeild).
Eftirtalin stéttarfélög utan BHM undirrituðu samninginn:
Kjarafélag Tæknifræðingafélags Íslands, Stéttarfélag verkfræðinga og Lyfjafræðingafélag Íslands.