Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra segir að tvö ný álver séu andstæð stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum. „Það liggur algjörlega fyrir. Stefnumörkun stjórnvalda til 2050 er um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda um 50 til 75 prósent,“ segir hún og bætir við: „Við erum í afar miklum og flóknum samningaviðræðum á alþjóðavettvangi um loftslagssamninginn og hvað tekur við eftir 2012. Það eina sem við vitum örugglega er að það verður samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda og að greiða þarf fyrir heimildir á þær á markaði.“