Mjólkurlamb kynnt matgæðingum

Mjólkurlamb
Mjólkurlamb mbl.is/Frikki

Valdir matgæðingar fengu að smakka á mjólkurlambi í Veisluturninum í Kópavogi í fyrrakvöld og lýstu þeir yfir mikilli ánægju með kjötið, að sögn Óskars Finnssonar matreiðslumeistara sem stefnir að því að vera með mjólkurlamb á matseðlinum að ári.

Óskar bendir á að mjólkurlömb séu ekki algeng á Íslandi vegna þess að bændur fái mjög lítinn pening fyrir þau, en þau þyki herramannsmatur víða eins og til dæmis á Norður-Spáni, í Suður-Frakklandi, Grikklandi og Tyrklandi. Þetta sé allt annað en hefðbundið lambakjöt og réttirnir öðruvísi. Vilji menn læri fái þeir til dæmis heilt læri á diskinn. Í fyrrakvöld hafi hann boðið upp á fjögur fjögurra vikna gömul lömb og hafi skrokkarnir vegið um 3,7 til 4,2 kg.

„Þetta var ofboðslega mjúkt og safaríkt kjöt,“ segir Óskar og bætir við að viðtökurnar hafi verið mjög góðar. Kjötið hafi verið matreitt með ýmsum hætti, en mesta ánægjan hafi verið með einföldustu matreiðsluna. „Þetta er viðbót sem þarf og við brostum hringinn þegar við gengum út.“

Óskar telur að mjólkurlambið eigi eftir að slá í gegn og hyggst verða sér úti um um 200 lömb næsta vor. steinthor@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert