Hátíðin Hamingjudagar sem haldin er á Hólmavík núna um helgina hefur gengið mjög vel, segir framkvæmdastjórinn, og voru gestir alls um eitt þúsund. Að loknum dansleik í gær var allt með kyrrum kjörum, og fengu skipuleggjendur hátíðarinnar hrós frá lögreglunni fyrir öfluga gæslu. Flytja þurfti dagskrána undir þak í gær vegna veðurs, en það kom ekki að sök.
Dansleikur var haldinn í gærkvöldi og fram á nótt, en að honum loknum fóru gestir til síns heima og allt datt í dúnalogn í bænum, segir Brynja Bjarnfjörð Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar. Hún segir ennfremur að gæsla hafi verið ströng „og við gerðum ráð fyrir að geta gripið inn í ef eitthvað færi úrskeiðis.“