Hraðakstur algengast orsök banaslysa

Fimmtán létust í umferðinni á síðasta ári.
Fimmtán létust í umferðinni á síðasta ári. mbl.is/RNU

Árið 2007 fórust 15 einstaklingar í 15 banaslysum í umferðinni og er það 16 dauðsföllum færra en árið 2006. Hraðakstur hefur lengi verið algengasta orsök alvarlegra umferðarslysa á Íslandi og varð engin breyting á því árið 2007. Í sex af 15 banaslysum í umferðinni var ökuhraðinn yfir hámarkshraða eða ekið var of greitt miðað við aðstæður.

Ef litið er til aðalorsakaþátta í banaslysum ársins 2007 má sjá að hraðakstur kemur við sögu í nálægt helmingi slysanna. Í þriðjungi þeirra var sá sem fórst ekki spenntur í öryggisbelti. Ef einungis er miðað við ökumenn og farþega bifreiða þá var hlutfall þeirra sem notuðu ekki öryggisbelti mjög hátt eða 55%. Þetta kemur fram í ársskýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa sem kom út í dag.

Í þremur banaslysum ökumaður ölvaður

Í þremur banaslysum var ökumaður ölvaður og í þremur slysum komu svefn eða þreyta við sögu sem orsakaþættir. Hvort tveggja er meðal fjögurra algengustu orsakaþátta banaslysa í umferðinni undanfarin ár. Rannsóknarnefnd umferðarslysa telur að ekki hafi tekist nægjanlega vel að vekja athygli á né framfylgja ákvæðum um heilbrigðiskröfur sem gerðar eru til ökumanna í íslenskum lögum og reglum.

Þetta endurspeglast í fyrirliggjandi tölfræði um slys sem veikir ökumenn hafa valdið. Alls má rekja 13 banaslys í umferðinni á síðustu árum til veikinda og notkunar lyfja vegna sjúkdóma. Í 11 af þessum 13 tilvikum var vitað fyrir um sjúkdóm eða veikindi sem höfðu áhrif á ökuhæfni viðkomandi og höfðu vandamálin verið greind af læknum fyrir viðkomandi slys.

Andlegi þátturinn skiptir einnig máli. Deilur, rifrildi og andlegt uppnám komu við sögu sem undanfari fjögurra af 15 banaslysum í umferðinni árið 2007. Í þremur þessara slysa kom áfengi einnig við sögu. Á hverju ári verða banaslys í umferðinni sem má rekja til þessa þáttar og hvetur nefndin til opinskárrar umræðu um þessa hættu. Slysin sem hér er átt við verða gjarnan að sumarlagi, þegar fólk er að skemmta sér, en það snýst upp í andhverfu sína.

„Aksturslag ökumannanna er oft kæruleysislegt, þeir aka hratt og eru skeytingalausir gagnvart hættum. Þannig leggja þeir bæði líf sitt og annarra í hættu. Vinir og ættingjar geta haft áhrif á þessa atburðarás, ýmist með því að stöðva þann sem hyggst rjúka á brott og tala hann til eða tilkynna lögreglu ef viðkomandi ekur brott undir áhrifum áfengis," að því er segir í skýrslunni.

Sjálfsvíg í einu banaslysi

Í einu slysi sem Rannsóknarnefnd umferðarslysa rannsakaði árið 2007 telur nefndin, eftir ítarlega rannsókn, að um sjálfsvíg hafi verið að ræða. Þar sem sjálfsvíg eru ekki slys samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu er ekki fjallað um þau með sama hætti og önnur dauðsföll. Rannsóknarnefndin telur að 5 af skráðum banaslysum í umferðinni á árunum 2001-2006 hafi í raun verið sjálfsvíg.

Bílbelti hefðu getað bjargað 42 mannslífum í umferðinni frá 1998

Að mati Rannsóknarnefndar umferðarslysa eru líkur á að í tveimur banaslysum árið 2007 hefði hinn látni lifað slysið af ef hann hefði verið spenntur í öryggisbelti.  Frá árinu 1998 hafa alls 42 látist í umferðinni sem mögulega hefðu lifað af hefðu þeir notað bílbelti.

Árið 2007 fórust þrír bifhjólamenn í umferðarslysum. Frá árinu 1998 hafa 10 bifhjólamenn farist í umferðarslysum, þar af 7 á undanförnum 5 árum. Þegar litið er á tölur yfir alvarleg bifhjólaslys sést að þau eru rúmlega þrefalt fleiri árið 2007 en árin 2003 og 2004.

Annars vegar eru slys á vegamótum þar sem ekið er í veg fyrir bifhjólamenn. Hins vegar er útafakstur bifhjólamanna, oftast á miklum hraða og eru kappakstursbifhjól (svokölluð racer-hjól) áberandi í þeim hópi. Í tveimur af þremur bifhjólaslysum ársins 2007 var bifreið ekið í veg fyrir bifhjól en í því þriðja ók bifhjólamaður allt of hratt.

Í bifhjólaslysi sem varð á vegamótum Akrafjallsvegar og Innnesvegar í júlí 2007 hefði ökumaður bifhjólsins mögulega getað náð að sveigja frá bifreiðinni sem ekið var í veg fyrir hann. Mikilvægt er fyrir ökumenn bifhjóla að æfa vel viðbrögð við óvæntri hindrun og jafnframt að treysta ekki algerlega á að aðrir ökumenn sjái þá.

4 banaslys á Suðurlandsvegi

Alls voru fjögur banaslys á Suðurlandsvegi árið 2007. Öll þessi slys voru framanákeyrslur sem hefði mátt komast hjá með aðgreiningu akstursstefna, samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa.

Ársskýrsla Rannsóknarnefndar umferðarslysa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert