Mikil vonbrigði meðal ljósmæðra


 Félagsfundur Ljósmæðrafélags Íslands lýsir yfir miklum vonbrigðum með stöðu samningaviðræðna við ríkið.  Ljósmæður skrifuðu ekki undir þann samning sem félög innan BHM og háskólamanna undirrituðu á laugardag.  Ástæða þess er að samninganefnd ríkisins hefur ekki á neinn hátt komið til móts við kröfur ljósmæðra um launaleiðréttingu.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að menntunarkröfur til ljósmæðra eru 6 ára háskólamenntun sem lýkur með embættisprófi á meistarastigi.  Í dag standa ljósmæður frammi fyrir því að þiggja lægri laun í þjónustu ríkisins en allar aðrar háskólamenntaðar stéttir með sambærilega menntun.  Ljósmæður sætta sig ekki við að vera mismunað á þennan hátt af hálfu vinnuveitandans.
 
Menntun ekki metin til launa

Þær menntunarkröfur sem gerðar eru til ljósmæðra eru sex ára háskólanám sem lýkur með embættisprófi á meistarastigi.  Hingað til hafa þessar hæfniskröfur ekki verið metnar til launa. 
 
Ljósmæðraþjónusta í hættu

Nýliðun í stéttinni stendur ekki undir því brottfalli sem verður næstu tíu árin, þar sem 44% starfandi ljósmæðra fara á eftirlaun innan þess tíma.  Ekki verður staðið undir ljósmæðraþjónustu í landinu nema allar ljósmæður fáist til starfa í framtíðinni.  Það mun ekki gerast nema laun ljósmæðra verði leiðrétt miðað við laun stétta með sambærilega menntun í þjónustu ríkisins.

Félagsfundur Ljósmæðrafélags Íslands krefst þess að ríkisstjórn Íslands gefi samninganefnd ríkisins umboð til að semja við ljósmæður um þessa launaleiðréttingu svo tryggja megi áfram góða ljósmæðraþjónustu hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka