„Þetta er bara ekki framkvæmanlegt,“ segir Gunnar Gunnarsson, formaður bílanefndar Ríkiskaupa, spurður um ástæður þess að hægt gangi að framfylgja markmiðum ríkisstjórnarinnar frá mars 2007 um fjölgun vistvænna bíla, en samkvæmt þeim áttu 10% ríkisbifreiða að ganga fyrir vistvænum orkugjöfum í árslok 2008.
Í dag ganga þrír bílar ríkisins fyrir slíkum orkugjöfum. „Það stafar fyrst og fremst af því að útsölustaðir á eldsneytisgjöfum öðrum en bensíni og díselolíu eru sárafáir og eingöngu á höfuðborgarsvæðinu, en ríkisbifreiðar eru fyrst og fremst notaðar úti á landsbyggðinni.“
Engar líkur eru taldar á að markmið ríkisstjórnarinnar um að 10% ríkisbifreiða verði í lok árs knúin vistvænum orkugjöfum náist. Markmiðið var sett á ríkisstjórnarfundi í mars 2007, en í dag nýta ekki nema þrír bílar af um 1.100 slíka orkugjafa, að sögn Birgis Guðmundssonar hjá Ríkiskaupum.
Markmiðin gerðu ráð fyrir að hlutfallið færi í 20% árið 2010 og 35% í lok árs 2012, en ljóst er að mikið þarf til að svo verði.
Frá því að ríkisstjórnin ákvað að hækka hlutfall vistvænna ökutækja í 10% hefur bensínverð hækkað um 57% og verð á dísilolíu um 70,5%. Það er því ljóst að ríkið hefði sparað mikla fjármuni í eldsneytiskostnaði hefði markmiðið náðst, en samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins eru t.d. metangasbílar ekki dýrari í innkaupum en venjulegir bílar.