Málningu kastað á heimili byggingarfulltrúa

„Ég kærði þetta strax í nótt," segir Magnús Sædal, byggingarfulltrúi Reykjavíkur, en málningu var kastað á heimili hans í gærkvöldi.  Í samtali við mbl.is segir Magnús að fjölskyldumeðlimur hafi orðið var við læti í garðinum í nótt og þegar hann kom út sá hann að málningu hafi verið slett á húsið og „1,2 og Reykjavík farðu í rassgat" skrifað á húsið.   Magnús segist strax hafa málað yfir skemmdarverkin í morgun og haft samband við lögreglu.  Magnús segir verknaðinn tilræði við opinberan embættismann.        

Nafnlaus tölvupóstur barst mbl.is í dag þar sem fram kemur að málningunni hafi verið kastað á húsið til þess að mótmæla umhverfisátaki borgarinnar.  Í tölvupóstinum segir orðrétt „ Magnús Sædal og félagar hjá borginni, hafa nú sent 500 hús-og garðeigendum í miðborg Reykjavíkur bréf, þar sem krafist er þess að hús og garðar séu lagaðir að kröfum borgarinnar.  Hótað er dagsektum ef þessar lagfæringar hafa ekki átt sér stað fyrir 1. ágúst næstkomandi.  Magnús og allir þeir aðrir sem standa á bakvið þetta átak: Takið til í ykkar óreiðuhausum og látið annað fólk í friði."

„Þeir sem gerðu þetta átta sig ekki á því að fjöldi borgara hefur hafst samband við embætti byggingarfulltrúa og þakkað fyrir bréfið, en þeir eru greinilega ekki í hópi þeirra þessir," segir Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert