„Ég hef fengið nóg og sætti mig ekki lengur við þessi launakjör,“ segir Anna Sigríður Vernharðsdóttir, ljósmóðir á Landspítalanum til fimm ára. Hún sagði starfi sínu lausu í gær til að þrýsta á um betri kjör og telur að meira en 50% ljósmæðra á spítalanum hafi sagt upp, en þar starfa um 100 ljósmæður. Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sögðu 10 af 13 upp og allar þrjár á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði. Síðdegis í gær höfðu fjórar uppsagnir borist á Sjúkrahúsinu á Akranesi og eitthvað fleiri á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Þórunn Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, segir að 10 af 13 ljósmæðrum á fæðingadeild og mæðravernd hafi sagt upp í gær.
Anna Björnsdóttir, deildarstjóri kvennadeildar á Sjúkrahúsinu á Akranesi, segir að klukkan 16 í gær hafi fjórar af 10 ljósmæðrum sagt upp. Hún segir ljóst að verði uppsagnirnar að veruleika verði ekki hægt að halda deildinni gangandi lengur.
Anna Stefánsdóttir, annar forstjóri Landspítalans, segir ekki ljóst hve margar ljósmæður hafi sagt upp á Landspítalanum í gær en staðan liggi fyrir í dag.
Á Ísafirði sögðu allar þrjár ljósmæðurnar upp. Sigrún C. Halldórsdóttir, starfandi framkvæmdastjóri, segir að neyðarástand ríki gangi þær eftir.
Lilja Guðnadóttir, formaður Norðurlandsdeildar Ljósmæðrafélagsins, segir að nokkrar uppsagnir hafi borist í gær og staðan sé slæm.