Skemmdarverk á svokölluðum fallturni í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum hefðu getað valdið slysum á gestum garðsins ef athugull starfsmaður hefði ekki orðið þeirra var.
Skemmdarvargarnir virðast hafa kunnað vel til verka. „Það er eins og einhver hafi hreinlega ætlað sér að illa færi,“ segir Tómas Óskar Guðjónsson, forstöðumaður Fjölskyldu- og húsdýragarðsins.
Aðskotaefnið hafði ekki áhrif á gang turnsins fyrst um sinn, segir Tómas. „Athugull starfsmaður tók, þegar leið á daginn, eftir því að turninn seig á stöðum sem hann átti ekki að síga. Hefði þessi starfsmaður ekki verið svona athugull hefði turninn getað skollið niður með þeim afleiðingum að einhver hefði slasast.“
Turninn er 15 metra hár, en varakerfi tekur við sem á að dempa fallið ef kerfið bilar. „En höggið getur þó orðið mjög þungt,“ segir Tómas.
Hann segir að lok hafi verið skrúfað af tankinum og sía sem er undir lokinu tekin af. Eftir að sprautað hafði verið í tankinn var gengið vel frá honum aftur.
Aðspurður segist Tómas ekki gruna starfsmenn frekar en aðra, þótt skemmdarvargarnir hafi greinilega kunnað vel til verka.
Þar með er ekki öll sagan sögð því næstu nótt komu mennirnir aftur, að því er virðist til að endurtaka leikinn. „Næturvörður kom þá að þeim,“ segir Tómas. „Þetta voru þrír menn í kringum tvítugt, háir og grannir. Þegar næturvörðurinn kom að þeim voru þeir að reyna að brjótast inn í skúrinn að nýju, og heyrði hann á tali þeirra að þeim var kunnugt um að búið væri að fylla á olíutankinn aftur.“